Léttsveitin fór í sínar fyrstu æfingabúðir á Úlfljótsvatn í mars 1997. Gist var í nokkrum orlofshúsum og æft á daginn frá föstudegi til sunnudags. Á laugardagskvöldið var mikil matarveisla með ýmsum uppákomum og dansi. Allar skemmtu sér vel og kynni okkar urðu nánari.

Fyrstu "alvöru" tónleikarnir

Fyrstu alvöru tónleikar Léttsveitarinnar voru í Íslensku Óperunni 22 og 27 apríl 1997 undir yfirskriftinni "Græn sveifla". Á efnisskránni voru lög eftir Sigfús Halldórsson, íslensk dægurlög, lög úr söngleikjum og írsk "græn" lög. 

Hljómsveitin Rússibanarnir lét með okkur auk Wilmu Young á fiðlu og Stínu bongó á bongótrommur, en Stína hafði einmitt gengið til liðs við Léttsveitina haustið 1996. Og ekki má gleyma að nokkrar léttstígar konur úr kórnum dönsuðu Riverdance undir stjórn Lellu, sem líka er í kórnum.

                                                                                      Efnisskrá tónleikana 

                                                                                      Léttsveitin vorið 1998

 

 

Léttsveit Reykjavíkur vorið 1997

Léttsveitin söng á tónleikum með Kvennakór Reykjavíkur í maí 1997. Þetta voru kveðjutónleikar Margrétar J. Pálmadóttur þar sem hún var að hætta sem stjónandi Kvennakórsins. Á þessum tónelikum komu fram allir kórar sem störfuðu undir merkjum Kvennakórsins, þ.e. Kvennkór Reykjavíkur, Vox feminae, Senjoríturnar, Léttsveitin, Kórskólinn og Stúlknakór Reykjavíkur.

Vorið 1997 var stofnaður gönguhópur Léttsveitarinnar og var gengið um Öskjuhlíðina á þriðjudagskvöldum allt sumarið auk þess sem farið var í fjölskylduútilegu helgina fyrir verslunarmannahelgi. Þetta hefur haldist síðan.

Í byrjun nóvember 1007 fór svo kórinn í aðra utanlandsferð, aftur til Írlands, en í þetta sinn til Sligo, sem er nálægt landamærum Norður-Írlands. Þar var tekið þátt í kóramóti og var ferðin frábærlega vel heppnuð þó ekki ynnum við til verðlauna.