Léttur 2001

Hið árlega nýárspartí var haldið heima hjá Önnu Tryggva 13. janúar 2001. Konur mættu með ýmislegt góðgæti að heiman, drukku í hófi og sungu af hjartans list.


Vorönn hófst 16. janúar. Örfáar nýjar konur bætast í hópinn, þó nokkar hafi einnig hætt.

Léttsveitarkonur eru þetta vorið 110 talsins.

Árshátíðin

Föstudaginn 2. mars var árshátíð Léttsveitarinnar haldin í Agoges-salnum, Sigtúni 3. Hljómsveitin Nátthrafnar lék fyrir dansi og ýmis skemmtiatriði voru í boði.

 

Vortónleikar

Vortónleikar Léttsveitar Reykjavíkur sem báru yfirskriftina "Suður um höfin" voru haldnir í tónlistarhúsinu Ými, Skógarhlíð 20, á sumardaginn fyrsta 19. apríl kl. 20.00, laugardaginn 21. apríl kl. 17.00 og þriðjudaginn 24. apríl kl. 20.00. Efnisskráin var suðræn og spænsk í bland við íslensk og ensk lög.4KLASSÍSKAR komu fram með kórnum. Auk þess spiluðu með okkur hljóðfæraleikararnir, með píanóleikara Léttsveitarinnar í broddi fylkingar, Einar Kristján Einarssson, gítar, Kristinn Árnason, gítar og Jón Skuggi, bassi. Á slagverk spilaði Stína bongó, sem er ein Léttsveitarkvenna og einsöng söng Ása Bjarnadóttir, einnig í Léttsveitinni. Léttsveitin kom fram í nýjum kórkjólum á vortónleikum sínum. Kjólarnir eru hannaðir af Elínu Eddu Árnadóttur, búningahönnuði hjá Þjóðleikhúsinu.
Tónleikarnir voru hljóðritaðir fyrir Léttsveitarkonur til hlustunar.

Efnisskrá tónleikana 


Hér getið þið lesið fréttatilkynningu um tónleikana: 


Suður um höfin með Léttsveit Reykjavíkur 

Reykjavík 11. apríl, 2001

"Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur fagnar sumri með tónleikaröð sem hefst á sumardaginn fyrsta 19. apríl. Sungin verða ýmis lög úr suðri m.a. eftir Ricardo Rodriguez, Serrani, Sigfús Halldórsson og Pál Torfa Önundarson. 4 KLASSÍSKAR verða gestir kórsins, en það eru þær Björk Jónsdóttir sópran og Signý Sæmundsdóttir sópran ásamt Jóhönnu Þórhallsdóttur alt og Aðalheiði Þorsteinsdóttur píanóleikara. Léttsveitin er skipuð eitt hundrað og tíu konum. Stjórnandi kórsins er Jóhanna Þórhallsdóttir. Aðalheiður Þorsteinsdóttir hefur útsett flest lögin sem sungin verða og annast hún undirleik ásamt hljómsveit skipaðri Einari Kristjáni Einarssyni á gítar, Kristni Árnasyni á gítar og Jóni Skugga á bassa. Úr röðum kórsins koma fram Ása Bjarnadóttir sópran sem syngur einsöng og Stína bongó slagverksleikari. Þrennir sólartónleikar Léttsveitarinnar verða haldnir í Ými, húsi Karlakórs Reykjavíkur við Skógarhlíð fimmtudaginn 19.4. kl. 20.00, laugardaginn 21.4. kl.17.00 og þriðjudaginn 24.4. kl.20.00." 

 

Léttsveitin fór í ferð til Grundarfjarðar og Stykkishólms 5.-6. maí 2001. Í Stykkishólmi söng Léttsveitin fyrir utan veitingastað fyrir fjölmarga áhorfendur. Snæddur var hádegisverður um borð í Særúnu og síðan haldið á Grundarfjörð. Þar hélt Léttsveitin tónleika með Lögreglukór Reykjavíkur í Grundarfjaðarkirkju. Húsfyllir var á þessum tónleikum og tókust þeir afar vel. Gist frá á Hótel Framnesi í Grundarfirði, etinn kvöldmatur og síðan sungið í karókí fram eftir nóttu, dansað og drukkið. Á sunnudeginum var haldið heim á leið, en u.þ.b. 25 konur létu sig hafa það í brjáluðu veðri að fara í siglingu um Breiðafjarðareyjar. Þessi ferð var eins og allar aðrar ferðir sem Léttsveitin hefur skellt sér í, meiriháttar skemmtileg.

 


Vorönn lauk með slútti í Ými þriðjudaginn 8. maí. Allar konur komu með eitthvað smáveigis til átu og síðan var sungið og farið með gamanmál af ýmsu tagi. Ingibjörg Péturs samdi skemmtilegan brag um ferðina til Grundarfjarðar og Stykkishólms.

Bragurinn hennar Bimbu 


Léttsveitin söng á tónleikum Lögreglukórs Reykjavíkur í Seltjarnarneskirkju 19. maí.


Haustönn hófst 11. september, daginn sem heimurinn breyttist.

  

Akureyri

Tónleikaferð á Akureyri 13.-14. október. Sungið var í Glerárkirkju. Með okkur í för var Tómas R. Einarsson, bassaleikari. 

Efnisskrá tónleikana 

Léttsveitin á Akureyri (trúlega hafa samt ekki allar farið norður)  

Umsögn úr Mbl. okt. 2001

Fréttatilkynning GLAÐNAR YFIR GLERÁRKIRKJU

Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur heiðrar höfuðstað Norðurlands með nærveru sinni helgina 13.-14.október. Fyrir léttum söngsystrum fer stjórnandi kórsins Jóhanna V. Þórhallsdóttir - undirleikarar eru Aðaleiður Þorsteinsdóttir og Tómas R. Einarsson. Aðalheiður hefur jafnframt útsett flest þau lög sem kórinn syngur. Léttsveitin hefur starfað í 6 ár - fyrst sem skemmti- og gospelkór í Kvennakór Reykjavíkur, síðan varð hann að Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur en frá haustinu 2000 kórinn starfað sjálfstætt og æft í Ými við Skógarhlíð við hlið Karlakórs Reykjavíkur. Lög Léttsveitarinnar eru yfirleitt á léttari nótunum og er efniviður sóttur um víða veröld. Kórinn hefur haldið tónleika á hverju ári og sungið við ýmis tækifæri. Einnig hefur Léttsveitin gert garðinn frægan erlendis, í tvígang farið til Írlands, heimsótt Spán og Portúgal og í vor verður stefnan tekin á frændur vora í Danmörku. En nú er komið að því að Akureyringar fái notið ánægjustundar með þessum léttu söngsystrum. Tónleikarnir verða haldnir í Glerárkirkju, laugardaginn 13. október og hefjast kl. 17:00. Efnisskráin er afar fjölbreytt. Íslensk og erlend lög af ýmsu tagi en þó ber lagavalið nokkurn keim af árstíðinni á norðurslóð. Miðasala verður við innganginn.

 

Léttsveitin á Akureyri

Stjórn Léttsveitarinnar í æfingabúðum í Munaðarnesi 2002.
Frá vinstri: María Björk, Elín Sigríður, Margrét formaður, Þórkatla og Elín Stella.

Aðalfundur Léttsveitarinnar var haldinn 16. október í Ými. Kosin var ný stjórn. Út úr stjórn gengu þær Þóra Mínerva Hreiðarsdóttir, formaður og Eygló Eiðsdóttir ritari. Nýjar í stjórn voru kosnar María Björk Viðarsdóttir, gjaldkeri og Þórkatla Aðalsteinsdóttir, ritari. Nýr formaður var kjörin Margrét Þorvaldsdóttir, sem áður gegndi stöðu gjaldkera.

Stjórn Léttsveitarinnar haust 2001 - haust 2002
Margrét Þorvaldsdóttir, 1. sópran, formaður
Elín Stella Gunnarsdóttir, 1. alt, varaformaður
María Björk Viðarsdóttir, 2. alt, gjaldkeri
Elín Sigríður Jósepsdóttir, 2. sópran
Þórkatla Aðalsteinsdóttir, 1. sópran, ritari

Léttsveitin kom fram í sérstakri dagskrá "Laugardagskvöldið á Gili" í Ými ásamt með 4klassískum, Harmonikusveitinni Storminum og Karlakórnum Fóstbræðrum sem haldið var í Ými 27. október.

 

Jólatónleikar

Jólatónleikar Léttsveitarinnar voru haldnir í Bústaðakirkju 15. og 16. desember kl. 17.00. Jóhanna stjórnaði að venju og Aðalheiður spilaði á píanóið. Auk þess spilaði með okkur Tómas R. Einarsson, bassaleikari. Gestir tónleikanna voru Sigurjón Jóhannesson, tenór og Bjöllukór Bústaðakirkju sem Jóhanna stjórnar. Uppselt var á tónleikana og tókust þeir ágætlega.

Efnisskrá tónleikana  

Umsögn um tónleikana Mbl. 19. des. 2001