Tónleikagagnrýni 2004

 | Tónlist | 18. Apríl 2004

 

KÓRTÓNLEIKAR

Con amore

Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur, er áður var undir vængjum Kvennakórs Reykjavíkur en mun nú sjálfstætt starfandi, hélt vortónleika fyrir sneisafullu húsi í Austurbæ, forðum Austurbæjarbíói, einu bezta tónleikahúsi landsins, sama laugardag og Frændkórinn - og það bæði kl. 17 og 21. Léttsveitin mun senn á förum suður á Ítalíaló, og bauð af því tilefni upp á eitthvert litskrúðugasta tónleikaskrárprentmeti sem hér hefur sézt í áraraðir, ritað á báðum þjóðtungum og með sérstakri kveðju frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra.

 

Yfirskriftin var "That's AMORE" og vísaði í lag Harrys Warren á dagskránni úr kvikmyndinni "The Caddy" er Perry Como reið með húsum á 7. áratug. Væntanlega til að minna á að ástúð og umhyggja væri fráleitt fáséðara fyrirbrigði á okkar svölu breiddargráðum en í mollu Miðjarðarhafslanda. Má enda segja, að úthald 106 kvenna kórs (35, 33, 21 & 17 taldar frá 1. & 2. sópran í 1. & 2. alt), með öllu því tilheyrandi aukastússi sem ekki sízt fylgir söngförum til framandi landa, kalli á elju þá og fórnfýsi í garð lista er á alþjóðsku nefnist "con amore". Samtakamátt sem hver meðalkarlakór mætti öfunda LR af frá dýpstu hjartarótum.

Eigi skal óstöðugan æra með því að tilgreina hvert hinna 23 söngatriða í 6 númerum styttri heimadagskránni, sem aðeins að rúmlega hálfu leyti endurspeglaði áformaða Ítalíudagskrá, enda hamlar plássþröng að auki. Þó má kannski nefna meðal áhrifameiri númera "madrigaletto" Atla Heimis Sveinssonar Við svala lind, Fiskimannatangóljóð Winklers frá Capri, ítalska þjóðlagið Vieni sul mar (Haf, blikandi haf) og Brindisi úr La traviata Verdis er bæði gerðu mikla lukku; hið síðara að vísu ívið of hægt, meðan næsta lag, "Vespré-kór" sígaunakvenna úr sömu óperu (di Zingarelle) var aftur á móti of hratt. Heillandi léttleiki var yfir That's Amore, og Granada, síðasta atriðið, gerði sig einnig stólpavel.

Eini losarabragur prentaðrar tónleikadagskrár fólst í að geta ekki ein- og samsöngsatriða einsöngvaranna Signýjar Sæmundsdóttur og Þorgeirs Andréssonar. Signý söng lög Jakobs heitins Hallgrímssonar Allar vildu meyjarnar eiga hann og Vorvísu með stakri prýði og Þorgeir m.a. O sole mio, en brilleraði kannski mest með undraverðu úthaldi í sínum hluta af Granada Agustíns Lara á móti Signýju og kórnum síðast á dagskrá.

Sem endranær naut kórinn víða góðs af útsetningum píanista síns, Aðalheiðar Þorsteinsdóttur, og - með hæfilegri a cappella tilbreytingu - viðbótarundirleiks Tómasar R. Einarssonar á bassa, Mattis Kallio á fíngerða hnappanikku og Katrínar Jónu Þorsteinsdóttur (alías Stínu bongó) á latneskar húðir í "spænsku deildinni" undir lokin. Enn sem fyrr fannst manni þó stundum vanta ögn greinilegra "off-bít" á 2. og 4. slagi sem gítarleikari hefði getað aukið með sveiflu, t.d. í Caprílaginu og víðar.

Hvað sem öllu undangengnu smánarti líður stóð þó upp úr smitandi sönggleði kórsins, og er ekki að efa að Léttsveitin eigi eftir að gera það gott sunnan Alpafjalla með ferskum norrænum valkyrjumóð og glaðværum músíkboðskap.

Ríkarður Ö. Pálsson