top of page

Dómur um geisladisk 2005

Dómur um vortónleika 2005

Umfjöllun um kórinn 2005

Umfjöllun um myndina KÓRINN 2005

 

Silja Hauksdóttir leikstjóri

 | Kvikmyndir |11. október 2005

Kvikmyndir | Heimildarmynd eftir Silju Hauksdóttur frumsýnd í dag

Fylgst var meðal annars með kórferðalagi Léttsveitar Reykjavíkur. 

HEIMILDARMYNDIN Kórinn eftir Silju Hauksdóttur verður frumsýnd í kvöld klukkan 18 í Háskólabíói. Kórinn er heimildarmynd um Léttsveit Reykjavíkur sem er skipuð 120 konum og í myndinni er fylgst með nokkrum kórfélögum, persónulegum högum þeirra og bakgrunni.

Þá er einnig fylgst er með kórstarfi Léttsveitarinnar, æfingum og tónleikum en einnig fjársöfnun, svo sem sölu á klósettpappír og kökum í Kolaportinu.

Slegist er í för með kórnum til Ítalíu þar sem kórinn heldur tónleika í Veróna og Feneyjum og loks er farið í útilegu í Galtalæk þar sem sungið er í íslenskri sumarnótt.

Silja Hauksdóttir leikstjóri segir að kórstarfið, og það samfélag sem myndist í slíkum hópum, sé í raun eins konar þverskurður af samfélaginu öllu og því mjög áhugavert hráefni til heimildarmyndargerðar.

"Þessi mynd er að því leytinu til rannsókn á samfélaginu en það sem er líka svo merkilegt við þessa mynd er að það verkefni sem þetta samfélag tekst á við, er söngurinn og tónlistin."

Heimildarmyndin um Kórinn hefur verið í vinnslu í eitt og hálft ár og segir Silja að konunum hafi aldrei liðið illa í návist kvikmyndagerðarfólksins. Þær hafi þvert á móti verið óhemju skemmtilegar og lífsglaðar á meðan tökum stóð.

"Þær voru allan tímann ótrúlega samvinnufúsar og fljótar að venjast kvikmyndatökuvélinni og áður en maður vissi af var hún orðin að hverjum öðrum kórmeðlimi."

Um heimildarmyndaformið segir Silja að það sé gjörólíkt því venjulegu kvikmyndaformi sem hún hafi hingað til unnið með.

"Maður hefur til dæmis enga stjórn á atburðarásinni og neyðist því oft til að spila með þeim óvæntu atvikum sem gerast hverju sinni. Þetta er mjög ólíkt því að vinna með handrit þar sem hvert einasta smáatriði er skipulagt út í hörgul."

Þrátt fyrir það vill Silja ekki skera úr um hvort formið sé erfiðara.

"Þetta er hvorki einfaldara né erfiðara, bara allt öðruvísi."

Kórinn er eins og áður sagði frumsýnd í kvöld klukkan 18 í Háskólabíói og er von á Léttsveitinni allri eins og hún leggur sig á frumsýninguna

"Mér skilst að þær séu mjög spenntar og í miklu frumsýningarstuði," segir Silja að lokum.

Framleiðandi myndarinnar er Björn B. Björnsson fyrir Spark.

Eftir Höskuld Ólafsson

bottom of page