Kópavogi 12. maí 2002.

Elsku, bestu, meiriháttar æðislegu Léttsveitarkonur.

Í gær varð ég fyrir þeirri einstöku lífsreynslu að fara í fyrsta skipti á tónleika með Léttsveitinni. Og hvílík upplifun. Ef ég hef einhvern tímann efast um ágæti þessa kórs hvarf það eins og dögg fyrir sólu í gær. Alveg frá fyrstu tónum til hins síðasta var ég í einskonar vímuástandi og er eiginlega enn.

Innkoma kórsins var ótrúlega skemmtileg með Dunnu í þessu fína gervi, engin brussulæti þegar þessi stóri kór raðaði sér á pallana og söngurinn ljúfur og góður. Síðan eru sungin þessi einstaklega ljúfu Jónasarlög og þá heyrðist vel hvað hljómurinn í kórnum er orðinn góður og skemmtileg gestaþraut fyrir áhorfendur að reyna að átta sig á því hver syngur hvaða rödd.

Svo kom Vorvísan - Tindafjalla sem búið er að stagglast á í allan vetur frá æfingabúðum og hefur eiginlega aldrei gengið almennilega upp á æfingum en þarna sýndi sig að það borgar sig fyrir Jóhönnu að gera okkur vitlausar með því að fara aftur og aftur í það sama og Slá, slá, slá....þetta inn í hausinn á okkur. Þetta lag var algjört bravör, hvergi feilnóta, sláið akkúrat og ekkert auka tra. Húrra fyrir ykkur.

Síðan koma Jeg lagde min gård sem var fínt og dadúda í Spurven jafnpottþétt og sláið í vorvísunni. Annað bravó. Varmlandið flott svona acapella og Visan ljúf og yndisleg.

Og þá er komið að fyrra finnska laginu með Birnu og Ásu í einsöngnum. Eftir að hlusta á það lag var mér allri lokið, gráti næst með gæsahúð um allan líkamann. Þetta lag var svo vel sungið að þó maður skilji ekki baun í textanum skilur maður fegurð þess. Yndislegt, yndislegt. Hmmm.....

Kalliolli stendur alltaf fyrir sínu, er og verður alltaf eitt af mínum uppáhaldslögum. Og svo koma rússnesku lögin sem voru hress og skemmtileg, þó mér finnst alltaf einhver drungi yfir Kvöldi í Moskvu, ekki eins gaman að hlusta á það og að syngja það.

Og svo kemur Jóhanna og syngur sinn söng. Mér hefur alltaf fundist Jóhanna góð söngkona og hún söng þetta lag af snilld. Alltaf þegar Jóhanna syngur langar mig að heyra meira. Takk Jóhanna.

Stolnu stefnin hans Tomma er okkar lag og ég held að Tommi hafi með þessu innleggi sínu fengið formlega inngöngu í Léttsveitina.

Vegir liggja til allra átta vel sungið og síðan Pedro Romero sem var krúttlegt og skemmtilegt og hér sýnir Léttsveitin sína sönnu takta í túlkun. Líflegt og flott. Í skovens dype rennur ljúft inn. Og í Aften lygni ég aftur augunum, renn inn í sólarlagið og eins og Védís orðaði það var ég eins og herónínsjúklingur eftir góða sprautu á svipinn, sem sagt í sæluvímu.

Og í den lysegronne gat ég ekki hamið mig og söng hástöfum með, manninum við hliðina á mér til mikilliar mæðu. Hann var löngu hættur að skilja hvaða geðsjúklingur þetta var sem sat við hliðina á honum og gat engan veginn hamið sig. Vorvísa Hallbjargar flott í aukalagi og svo að fá aftur að syngja den lysegronne. Þá var stolt mitt og geðshræring yfir þessum frábæra kór orðið svo mikil að mig langaði til að standa upp og hrópa: Hverjar eru bestar - Léttsveitin, Léttsveitin, Léttsveitin....Ég er ekki viss um að Jóhanna hefði orðið glöð með það og rekið mig úr kórnum med det samme.

Og niðurstaðan. Takk, takk, takk fyrir frábæra tónleika og ég sem var hætt við að fara með til Danmerkur skipti snarlega um skoðun á miðjum tónleikum og hugsaði með mér. Ég verð að taka þátt í því að heilla Dani og Svía upp úr skónum því við erum svo sannarlega æðislegar.

Kveðja frá einni í sæluvímu,

Silla, 2. alt