Þuríður E. Pétursdóttir
Margrét sagði upp störfum, segir Þuríður E. Pétursdóttir, en var ekki rekin.

UNDANFARNAR vikur hefur birst og heyrst í fjölmiðlum hvert viðtalið á fætur öðru við Margréti J. Pálmadóttur, kórstjóra. Kjarni þess sem hún segir í þessum viðtölum er að ákveðinn einstaklingur hafi náð völdum í Kvennakór Reykjavíkur með það að markmiði að reka Margréti frá kórnum og eyðileggja hugsjón hennar um kvennakórasöng. Hún hefur nafngreint undirritaða í því sambandi.

 

Upphafið

Til þess að eyða þeim misskilningi sem málflutningur Margrétar kann að hafa valdið er rétt að eftirfarandi komi fram. Kvennakór Reykjavíkur var stofnaður í janúar 1993. Fljótlega spruttu út úr honum litlir hópar kvenna sem ýmist vildu syngja meira en kórinn bauð upp á eða öðruvísi tónlist. Þessir hópar þróuðust yfir í sérstakan kór, Vox Feminae. Auk þess var stofnaður kór eldri kvenna, Senjoríturnar. Kvennakór Reykjavíkur rak einnig kórskóla og var aðsókn geysilega mikil. Námsmeyjar kórskólans vildu gjarnan halda áfram að syngja þegar skólanum lauk og var þá stofnaður nýr kór, Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur, árið 1995 sem Jóhanna Þórhallsdóttir hefur stjórnað frá upphafi.

 

Margrét sagði upp

Margrét Pálmadóttir stjórnaði Kvennakór Reykjavíkur til vors 1997, en þá sagði hún upp störfum. Þrátt fyrir að maður gengi undir manns hönd að fá hana til að hætta við varð henni ekki hnikað. Henni var haldið veglegt kveðjuhóf vorið 1997 þar sem hún var leyst út með gjöfum. Kórinn réð sér nýjan kórstjóra, Sigrúnu Þorgeirsdóttur, sem hefur stjórnað kórnum síðan. Margrét kenndi áfram við kórskóla Kvennakórs Reykjavíkur. Eins og áður var mikil aðsókn, svo að efni var komið í nýjan kór í byrjun árs 1998. Þá urðu Gospelsystur Kvennakórs Reykjavíkur til og stjórnar Margrét þeim enn þann dag í dag. Samanlagt eru það um 450 konur sem syngja í öllum kórunum.

 

Rekstur og ábyrgð

Kvennakór Reykjavíkur sá um rekstur og fjármál allra þessara kóra, réð kórstjóra og undirleikara og innheimti kórgjöld. Svo sem nærri má geta voru fjármálin flókin og mikill tími fór í rekstur og umsýslu. Undanfarin tvö ár hefur orðið vart óánægju með þetta fyrirkomulag. Byggðist sú óánægja bæði á því að konur voru komnar í kór fyrst og fremst til að syngja en ekki að standa í erfiðum rekstri og á samstarfsörðugleikum milli kóranna í tengslum við skipulag tónleika. Við þetta bættist óánægja með að kórarnir lögðu ekki hlutfallslega jafnt til rekstursins. Bar þar hæst að einn af kórunum stóð ekki undir sér fjárhagslega og virtist ekki vera neinn vilji til að bæta úr því.

 

Lausnin

Síðastliðinn vetur komust konurnar í Kvennakór Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að engin nauðsyn væri á því að kórinn bæri ábyrgð á og sæi um rekstur og fjármál annarra kóra. Þar væru fullorðnar konur sem gætu vel séð um þessi mál sjálfar. Niðurstaðan varð sú að fulltrúar fjögurra kóra unnu í sumar að sameiginlegri samþykkt að nýju skipulagi, þar sem hver kór ber ábyrgð á og sér um rekstur sinn og fjármál.

 

Uppsagnir og endurráðning

Allir stjórnendur og undirleikarar kóranna voru á launaskrá Kvennakórs Reykjavíkur, en ekki hjá þeim kórum sem þeir stjórnuðu. Vegna ákvæða um gildistíma var nauðsynlegt að segja samningunum lausum í vor þegar hafist var handa við skipulagsbreytingarnar. Kórstjórum og undirleikurum var því öllum sagt upp í maí sl. Undirrituð hringdi í alla hlutaðeigandi og sagði þeim frá væntanlegri bréflegri uppsögn. Kórstjórarnir hafa allir verið ráðnir á ný til fyrri starfa, það er til að stjórna þeim kórum sem þeir stjórnuðu áður. Þar með talin margumrædd Margrét.

 

Staðan í dag

Kórarnir æfa allir í sama húsnæðinu, Ými, tónlistarhúsi við Skógarhlíð. Þeir hafa allir sömu stjórnendur og áður og starfsemin er óbreytt. Eina breytingin sem hefur orðið á rekstri kóranna er sú, að í stað þess að fimm stjórnarkonur í Kvennakór Reykjavíkur beri alla ábyrgð og hafi öll völd eru það nú tuttugu stjórnarkonur í fjórum kórum sem bera ábyrgð og hafa völd.

 

Ekki einstaklingar

Málið snýst því ekki um einstaklinga, hvorki Margréti Pálmadóttur né undirritaða. Heldur snýst málið um að leyfa sönggleði kvenna að njóta sín og öflugum kvennakórum að blómstra og þróast í friði.

Ein af þeim reglum sem prentaðar hafa verið á símaskrá Kvennakórs Reykjavíkur í gegnum tíðina er:

Við tölum ekki hver um aðra heldur hver við aðra.

Vonandi verður þessi regla höfð í heiðri í framtíðinni.

Höfundur er formaður Kvennakórs Reykjavíkur.