Jóhanna V. Þórhallsdóttir er fædd í Reykjavík 1957. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð tók við söngnám í Söngskóla Sigursveins, Royal Northern College of Music í Manchester Englandi og hjá einkakennurum í Lundúnum, Vínarborg og Firoenzuola á Ítalíu. Var alkomin heim 1993 og hefur unnið sem söngvari og söngkennari allar götur síðan. Stofnaði Léttsveitina 1995 og auk þess að stjórna henni, stýrir hún m.a. barna- og unglingakórum Bústaðakirkju, en þeir eru fimm talsins. Jóhanna á tvö börn og heita þau Hildigunnur og Guðmundur Þórir.

 

Léttsveitin er einn þessara bráðhressu kvennakóra sem starfað hafa hér á landi síðustu árin. Þessi kór, Léttsveitin, verður tíu ára á næsta ári, en hugar fyrst að meira aðkallandi málum sem eru t.d. árlegir vortónleikar kórsins í Austurbæ á morgun, laugardaginn 3. apríl, en þá verða tvennir tónleikar, aðrir sem hefjast klukkan 5 og þeir síðari sem hefjast klukkan 8. Mun vera fast að því uppselt á þá báða, að sögn Jóhönnu V. Þórhallsdóttur, altsöngkonu, stofnanda Léttsveitarinnar og söngkennara til fjölda ára, sem svaraði nokkrum spurningum sem Morgunblaðið lagði fyrir hana í vikunni. Samtalið og svör Jóhönnu fara hér á eftir.

Fyrst væri gaman að heyra eitthvað um tilurð og forsögu þessa kórs, Jóhanna...

"Léttsveitin var stofnuð 1995 og hef ég verið stjórnandi hennar frá upphafi. Sveitin var hluti af þessu stóra kvennakórabatteríi sem þarna ruddi sér til rúms, Kvennakór Reykjavíkur, Gospel systur, Vox Femine, Léttsveitin og Senjoríturnar. Hver þessara kóra var skipaður um og yfir hundrað konum og þetta var allt undir sama hatti. Þetta varð allt of stórt og ábyrgðin á fáum einstaklingum svo það má segja að það hafi orðið að brjóta þetta upp í einingar og það varð því úr að brjóta þetta upp í einingar. Endanleg slit urðu síðan fyrir fjórum árum. Léttsveitin er því sjálfstæður kór og verður tíu ára á næsta ári."

Léttsveitin, eitthvað hlýtur að felast í nafninu, fyrir hvað stendur það eiginlega?

"Það getur staðið fyrir ýmislegt í sjálfu sér, kannski ekki síst almennt geðslag kórsins. En tónlistarvalið er kannski það augljósa, en við leggjum sérstaka áherslu á rythmíska og léttari sveiflutónlist. Við eigum það svo sem til að taka Verdi og Bizet inni á milli ef okkur dettur það til hugar, en almennt er það léttleikinn, við leggjum áherslu á skemmtigildi dagskráa okkar og tökum gjarnan dansspor með."

Og nú er komið að vortónleikum. Væntanlega stendur eitthvað fjölbreytt og skemmtilegt fyrir dyrum?

"Já, nú er komið að þeim, í Austurbæ á morgun eins og komið hefur fram. Við verðum að vanda með hljómsveit með okkur þar sem þau Aðalheiður Þorsteinsdóttir, píanóleikari og útsetjari okkar, Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari og hinn finnski Matti Kallio harmonikkuleikari munu að öðrum ólöstuðum skipa stór hlutverk. Við verðum með ítalska Napólítónlist, óperur og óperettur í bland við suðrænu latínósveifluna okkar hefðbundnu og svo fáum við meira að segja íslensk lög og þjóðlög."

Og sviðsframkoman verður væntanlega í samræmi við annað?

"Já. Ekki spurning. Þetta eru um 120 konur af öllum stærðum og gerðum, frá 25 ára til sextugs og úr öllum þjóðfélagsstigum. Og þetta eru afskaplega heitar konur og verða heitklæddar á tónleikunum, í svona kamparí, koníaks- og rauðvínsrauðum kjólum. Síðan er það meira um tónleikana að segja að við erum með einsöngvara með okkur, Signý Sæmundsdóttur sópran og Þorgeir J. Andrésson tenór."

Bíddu við ... karl með kvennakór?

"Já, það er dásamlegt að hafa karla með okkur. Þeir hita líka upp tónleikana. Karlar eru nauðsynlegir. Til dæmis hann Tómas okkar, hann er orðinn fastagestur og fékk meira að segja að vera með í uppskriftabókinni okkar, og fer að sjálfsögðu með okkur í söngferðir til útlanda."

Ef þetta er svona gaman, komast þá ekki færri að en vilja í þennan kór?

"Jú, því miður er það rétt. Þetta er gríðarlega skemmtilegt, margar nefndir og margþætt félagsstarf samhliða söngnum. Við förum um land allt og til útlanda, höfum víða komið við, allt frá Bolungarvík til Spánar og alls staðar er jafn gaman að koma, kynnast fólki og syngja fyrir það. En fyrir vikið er mjög sótt í þetta til okkar. Ég hef ekki getað sett auglýsingu eftir nýjum félögum í tvö eða þrjú ár, þetta er svo gaman að ég losna ekki við þær sem fyrir eru. Þær vilja ekki fara."

Tíu ára afmæli er aðeins einu sinni, eitthvað stendur líklega til á afmælisárinu 2005?

"Það er óhætt að segja það, en kannski ekki rétti tíminn til að segja mikið frá því. Við skulum láta duga að segja að við erum áttaðar á því sem framundan er og erum farnar að taka til hendinni við skipulagningu. Það má þó koma fram, að tónskáld hafa verið kölluð til og ræst út, því nú skal semja sérstaklega fyrir okkur í tilefni afmælisins."